Íslenska sem annað mál

Rakel Sigurgeirsdóttir

Um þessa síðu

Síðan er lokaverkefni í kúrsinum UPP106F Vefstjórnun sem er hluti af mastersnámi í upplýsingafræði og þekkingarmiðlun.
Kennari er: Sigríður Björk Einarsdóttir.
Höfundur síðunnar er: Rakel Sigurgeirsdóttir.

Fallegur hópur níu brosandi ungmenna af ýmsu þjóðerni.

Fjölþjóðlegur hópur tungumálanemenda. Ljósmyndari: Christopher Futcher

Síðunni er ætlað að gefa hugmynd um það hvernig upplýsingasíða í sambandi við íslensku sem annað mál getur litið út. Á hana hefur verið safnað margs konar upplýsingum, tenglum og myndböndum sem geta nýst bæði nemendum og kennurum.

Höfundur síðunnar kennir íslensku sem annað mál og hefur kynnst því að nemendur spyrja oft um gagnvirkt efni og æfingar til að æfa til dæmis málfræði og framburð. Til að geta svarað spurningum af þessu tagi væri mjög gott að geta vísað á einn stað þar sem nemendur geta að minnsta kosti fengið einhverja tilfinningu og jafnvel yfirsýn yfir það fjölbreytta efni sem er til bæði í bókabúðum og á netinu.

Það er ekki síður líklegt að kennarar hafi gagn af því að hafa síðu þar sem er hægt að ganga að námsefni og upplýsingum. Margt af því sem er á síðunni gefur góða mynd af þeim vaxandi áhuga sem íslenskan nýtur. Þessi vefsíða gæti því allt eins verið áhugaverð fyrir aðra en nemendur og kennara íslensku sem annars máls.

Auk efnisflokkaðra upplýsingasíðna og myndbandabloggs eru færsluflokkarnir molar og frímínútur spennandi vettvangur þar sem höfundur byggir skrifin á reynslu sinni úr kennslunni og því fjölbreytta efni sem er að finna á netinu um íslenskt mál. Eitthvað af efni síðunnar ætti því að höfða til allra sem eiga íslensku að móðurmáli og verða þeim til uppbyggingar varðandi afstöðuna til tungumálsins og annarra þátta íslenskrar menningar.

Myndirnar á síðunni eru langflestar teknar af fríum myndaaðgangi Pixlabay. Einhverjar koma af slíkum aðgangi á Flickr. Þær sem koma frá Getty Images eru merktar þeim. Myndin á þessari síðu og í haus síðunnar er tekin af iStock sem er önnur vefsíða á vegum Getty Images. Komi myndirnar annars staðar frá er þess getið í myndatexta.

Uppfært 17. desember 2015.

Færðu inn athugasemd