Íslenska sem annað mál

Rakel Sigurgeirsdóttir

Kennslumyndbönd

Það eru nokkrir sem hafa gert myndbönd í þeim tilgangi að kenna íslensku. Hér verður bent á þrjár myndbandasyrpur sem nýtast bæði kennurum og nemendum.


Icelandic Lessons 
 Þættirnir eru frá árinu 2013
 Höfundur: Cool Icelandic Lessons 
 Hýsing: You Tube

Í þessari syrpu er megináherslan á orðaforða. Orðin eru kynnt með myndum. Stundum eru orðin talin upp bæði í eintölu og fleirtölu en svo er farið í klukkuna og gefin dæmi um mjög einfaldar samræður. Syrpan inniheldur 56 kennslustundir sem eru flestar á bilinu ein til þrjár mínútur að lengd. Kennslustundirnar eru líka á tumblr.com undir heitinu Cool Icelandic lessons.


Learn Icelandic 
 Þættirnir eru frá árinu 2008
 Kennari: Eva Natalja Robertsdottir
 Framleiðandi: Expert Village
 Hýsing You Tube

Í þessari syrpu eru 27 kennslustundir. Kennslustundirnar eru flestar á bilinu ein mínúta til þrjár mínútur að lengd. Hér er farið í algenga frasa í kringum ýmsar aðstæður eins og: það að ferðast, í sambandi við mat og borðsiði og svo það að spyrja til vegar. Kennarinn talar á ensku. Það sem hann segir á íslensku segir hann alltaf á ensku fyrst. Eva Natalja er alltaf í nærmynd sem er gott því þá er hægt að sjá hvernig hún myndar íslensku málhljóðin.


Viltu læra íslensku
 Sýndir í sjónvarpinu árið 2003
 Framleiðandi: Jón Hermannsson hjá Tefra Films
 Hugmyndasmiður: Mike Handley
 Hýsing: Tungumálatorg
21 mynd ásamt heitum þáttanna

Yfirlitsmynd yfir þáttaúrvalið

Þó þættirnir séu komnir til ára sinna er óhætt að mæla með þeim þar sem þeir eru bæði vandaðir og metnaðarfullir. Það eru sex konur sem eiga heiðurinn af handriti þáttanna og sjá um kennsluna. Þættirnir fjalla um daglegt líf og störf á íslensku. Þeir eru textaðir á íslensku og hverjum þætti fylgir svo yfirlit á fimm tungumálum eða: ensku, íslensku, pólsku, spænsku og þýsku. Hver þáttur er korterslangur og er þeim skipt í tvennt.

Fyrri hlutinn er leikinn en seinni hlutinn er tekinn upp í kennslustund þar sem farið er í orðaforðann sem kemur fram í þáttunum. Hverjum þætti fylgja svo gagnvirk verkefni með æfingum sem tengjast efni þáttanna. Það má fá hugmynd að fjölbreytni verkefnanna með því að skoða glærusýninguna hér að neðan en auðvitað er best að fara inn á síðuna og klikka á einn þáttinn.

This slideshow requires JavaScript.


Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir, verkefnisstjóri Tungumálatorgs, veitti leyfi til birtingar á myndum af vefsíðunni: Viltu læra íslensku? 

Uppfært 25. febrúar 2016